Costa Brava er einn af vinsælustu áfangastöðum ferðamanna á Spáni. Costa Brava er fallegt svæði sem hefur allt upp á að bjóða, fallega náttúru, ríka sögu, góða gististaði og ótal möguleika á afþreyingu. Í nálægð við Pýreneafjöllin er landslagið margbreytilegt, allt frá klettabeltum til hvítra stranda. Sannarlega ógleymanleg náttúrufegurð. Yfir 214 kílómetrar af strandlengju tilheyra Costa Brava svæðinu og eru margir bæir innan þessara marka eins og Lloret de Mar, Tossa de Mar og Girona.
Lloret de Mar er staðsett 90 kílómetrum frá Barcelona. Bærinn er fallegur, heillandi strandbær og einn af vinsælustu ferðamanna áfangastöðum Costa Brava strandlengjunnar. Lloret de Mar er þekkt fyrir baðströndina sína sem hefur hlotið viðurkenningar fyrir snyrtimennsku. Sjórinn er einstaklega tær og er tilvalinn staður fyrir kafara. Yfir daginn er nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna. Strandlengjan heillar alla ferðamenn og hægt er að busla í sjónum, byggja sandkastala eða bara flatmaga í sólinni. Eins er vatnasportið vinsælt í Lloret de Mar. Bærinn iðar af lífi og fjöri enda fjölmargir veitingastaðir, skemmtistaðir og úrval verslana. Næturlífið í Lloret de Mar fjörugt og stór diskótek og skemmtistaðir eru við aðal götu bæjarins. Bærinn er mjög fjölskylduvænn og alls staðar er aðgengi gott fyrir barnafólk. Fallegar göngu- og hjólaleiðir eru í kringum Lloret de Mar og Tossa de Mar.
Tossa de Mar er rómantískur og lítill bær staðsettur í næstu vík við Lloret de Mar.
Fjarlægðin milli þessa tveggja bæja eru u.þ.b.10 kílómetrar. Tossa de Mar er gamalt fiskimannaþorp og við ströndina stendur tignarlegur rómverskur kastali og viti, sem bærinn er þekktur fyrir. Tossa de Mar er vinsælt sumarhúsaland íbúa Barcelona. Í bænum er því mikið um heimamenn, og auðvitað ferðamenn einnig. Mikil uppbygging í þjónustu við ferðamenn hefur átt sér stað undanfarin ár og víða er að finna úrvals veitingastaði. Margar fallegar göngugötur eru í bænum. Sjórinn í Tossa de Mar er einstaklega tær og fallegur og hentar því mjög vel fyrir þá sem hafa áhuga á köfun og að snorkla. Mikið vatnasport er við víkina eins og hjólabátar, paddle board og köfun. Tossa de Mar er tilvalinn áfangastaður fyrir þá sem vilja rólegt umhverfi og gera vel við sig í gistingu, aðbúnaði og jafnframt vera staðsettir stutt frá lífinu í Lloret de Mar.
Á Costa Brava er frábært strandlíf, hvort sem þú vilt flatmaga í sólinni eða leika þér í sjónum, skella þér á sjóskíði, leigja sjókött eða láta draga þig um í fallhlíf, allir finna eitthvað við hæfi. Sjórinn er einstaklega tær og því æðisleg aðstaða að snorkla í sjónum og leika sér.
Afþreying
Water World - Er fullkominn staður til að upplifa ógleymanlegan dag með fjölskyldu og vinum. Í þessum vatnagarði er fjöldinn allur af vatnsrennibrautum og leiktækjum fyrir alla aldurshópa.
Marineland - Skemmtilegur fjölskyldugarður með vatnsrennibrautum og leiktækjum. Einnig eru höfrunga, sæljóna og páfagauka sýningar þar sem dýrin sýna stórkostlegar listir. Frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Salvador Dali - Út um alla Katalóníu má finna einhver merki eftir einn þekktasta listamann Spánverja (fyrir utan kannski Picasso) Salvador Dali. Heimili hans hefur verið breytt í safn, Casa-Museo Dalí, og geta gestir og gangandi skoðað það.
ArbreAventura - er adrenalíngarður við Lloret de Mar. Ótrúlega skemmtilegur garður fyrir jafnt unga sem aldna.
Monserrat og Benediktarklaustrið - Benediktarklaustrið er staðsett í stórbrotnu fjalli og hreint út sagt ótrúlega fallegri náttúru. Tónlistarskóli er í klaustrinu en þar er drengjakór sem syngur fyrir gesti.