Barcelona

Barcelona stórborgina er alltaf jafn freistandi að heimsækja. Þessi einstaka borg iðar af lífi hvort sem það er dagur eða nótt. Borgin er mikil borg menningar, lista, matar og tísku. Spánverjar hafa átt frábæra listamenn og þekktustu listasöfn Barcelona eru helguð Pablo Picasso og Joan Míró. Fallegar og sérstæðar byggingar arkitektsins Gaudís prýða borgina en þar ber hæst dómkirkjan fræga La Sagrada Familia. 

Það er yndislegt að sitja á kaffihúsi við Römbluna með sangríu í annarri og tapas í hinni, en Ramblan er eitt þekktasta stræti Spánar. Efst á Römblunni er hinn frægi aldagamli gosbrunnur, La Rambla de Canaletes. Út frá Römblunni hlykkjast göngugötur í allar áttir sem geyma litlar búðir, bari, veitingahús og matarmarkaðinn La Boqueria sem allir sælkerar þurfa að heimsækja.  
 
Áhugaverðir staðir  
Barceloneta -  vinsælasta ströndin í Barcelona. Hún er yfirleitt fjölmenn en mikið líf er um að vera á ströndinni. Þar eru einnig veitingastaðir sem og strandbarir. 
Plaça de Catalunya - er miðja Barcelona. Þarna mætist gamla og nýja borgin. Passeig de Gràcia er ein glæsilegasta gata Barcelona  Þar getur þú litið augum arkitektameistaraverk eftir Gaudi - Casa Batlló, La Predrera. Einnig eru þar mikið af flottustu tískuvöruverslunum heims. 
La Sagrada Familia - Kirkja hinnar heilögu fjölskyldu er eitthvað sem enginn lætur framhjá sér fara á leið sinni um Barcelona. Hún er eftir Antoni Gaudí og er ein af frægustu kirkjum heims. Gaudí helgaði lífi sínu kirkjunni allt til dauðadags. Kirkjan er enn í smíðum og margir deila um hversu langt verkið er komið og sumir segja að smíðin séu aðeins hálfnuð. 
Güell garður – Stór almenningsgarður á Carmel hæð í Grácia hverfi borgarinnar skreyttur af mikilli snilld af hinum óviðjafnanlega Antoni Gaudí. Staðurinn er á Heimsminjaskrá UNESCO og ekki af ástæðulausu. Bekkir, byggingar og skreytingar a lá Gaudí út um allan garð.  Mosaíkmyndir hafa aldrei litið svona vel út. Garðurinn er nefndur eftir gömlum greifa sem hér vildi reisa mikla íbúðabyggð á sínum tíma. Sá hét Güell og varð ekki kápan úr því klæðinu. Í garðinum er að finna heimili Gaudís sem einnig er hægt að skoða.  
Gotneski hlutinn  – Elsti borgarhluti Barcelona er Barri Gotic í norðurátt frá Römblunni. Þröngar götur, gömul hús og fjöldi smærri veitingastaða og fjölbreytt mannlíf.