Brighton

Brighton er ein litríkasta borg Bretlands og svo sannarlega þess virði að heimsækja þennan skemmtilega strandbæ. Brighton er tilvalinn staður til þess að versla með vinum, skemmta sér, borða góðan mat, láta heillast af þröngum strætum á The Lanes og njóta lífsins.

 

 

 

Næturlífið í Brighton er fjölbreytt og fjörugt allan ársins hring enda þekktur staður fyrir partý, gæsanir, steggjanir og hópefli. Bretar eru þekktir fyrir skemmtilega pub stemningu og verður enginn svikinn í Brighton.  
Brighton var eitt sinn sumarleyfisstaður konungsfólks og var Royal Pavilion höllin byggð sem sumarhús Georgs konungs, sem síðar varð Prince Regent. Í höllinni voru margir skemmtanaviðburðir haldnir og gefur það svolítið tóninn í þennan fjöruga strandbæ. 
Frá London Gatwick er um 25-30 mínútur með lestinni til Brighton.  
 
Áhugaverðir staðir í Brighton
Royal Pavilion - Er konungleg höll sem var byggð sem sumarhús fyrir Georg prins af Wales árið 1787. Höllin var seld Brighton borg síðar og þykir mjög gaman að ganga um höllina og garðinn og skoða. Um jólatímann er skautasvæði sett í garðinn og garðurinn allur uppljómaður af jólaseríum. 
The Lanes - Er hverfi í Brighton sem aðallega einkennist af þröngum götum, litlum verslunum og kaffihúsum. Hverfið er mjög sjarmerandi og er ótrúlega gaman að rölta þar um og skoða mannlífið. Hverfið er ekki stórt en það er hægt að miða við göturnar North Street í norður átt, Ship Street í vesturátt, Prince Albert Street, Bartholmew Square í suður átt. 
Brighton Palace Pier - Er fallega bryggjan við strönd Brighton. Bryggjan var byggð árið 1899 og voru ýmsir viðburðir haldnir á bryggjunni, þó með hléum í gegnum stríðin. Tivoli er á bryggjunni og er mjög gaman að ganga þar um og skoða mannlífið og sjá Brighton frá sjó. 
Brighton Marina - Er hverfi sem gaman er að gleyma sér í. Ekki eru aðeins fallegar skútur og snekkjur á svæðinu heldur er það einnig þekkt fyrir flottar verslanir og veitingastaði með útsýni yfir hafnarsvæðið. 
British Airways i360 (BA i360) er turninn sem blasir við á strönd Brighton. Turninn er 162 metrar á hæð og býður upp á einstakt útsýni yfir Brighton. Veitingastaður er á neðstu hæð nálarinnar en einnig er hægt að leigja nálina fyrir viðburð ef óskað er eftir.