London er höfuðborg Bretlands og jafnframt stærsta borg landsins og Evrópusambandsins en íbúar eru 7,5 milljónir. London á sér ríka og langa sögu og hefur borgin verið vinsæl meðal Íslendinga síðustu ár hvort sem ætlunin er að fara á fótboltaleik, versla, skemmta sér eða kynnast sögu og menningu Breta. Í borginni eru þúsundir pöbba og ef það er eitt sem maður getur alltaf treyst á er að það er pöbb handan við hornið. Mikið er um að vera í borginni og ættu allir því að finna sér eitthvað við sitt hæfi. Hvort sem það sé að kíkja á vaxmyndasafnið Madame Tussauds, sjá borgina úr London Eye, skoða hallir konungsfjölskyldunnar, íþróttaleikvanga, ferðast í tvöfalda strætó-inum eða skoða Big Ben. Það getur reynst erfitt að velja út fjölda verslana til þessa að versla sér í London en þá má helst nefna flaggskipin við Oxford Street og Regent Street. Veitingahúsin eru jafn mörg og fjölbreytt og fólkið í borginni. Í London er hægt að fá æðislegan mat á Michellin stjörnu veitingastað allt í að setjast niður á kaffihúsi og fá sér tebolla og kex með lókalnum. Heldur betur er hægt að fara á menningarviðburði í borginni en til gamans má geta að það eru um 32.000 söngleikir sýndir á hverju ári.
Rafrænt ferðaleyfi
Farþegar á leið til Bretlands þurfa að sækja um rafrænt ferðaleyfi (ETA). Sækja þarf um ETA-heimild í síðasta lagi 72 klst. fyrir brottför. Athugið að farþegar sem eru ekki með ETA-heimild eiga á hættu að vera neitað um borð í flug til Bretlands.
Ferðir til og frá flugvelli
Það er best að taka lest frá flugvelli í miðborg London en hér að neðan eru upplýsingar um þá flugvelli sem flogið er til frá Íslandi:
Heathrow airport - www.heathrowexpress.com -Einnig er hægt að taka neðanjarðarlest í bæinn frá Heathrow flugvellinum.
Gatwick airport – www.gatwickexpress.com
Stansted airport – www.stanstedexpress.com
Luton airport - www.lutonairportexpress.co.uk
Áhugavert að gera/ skoða
- London Official City Guide: Ef þig vantar hugmynd um hvað sé skemmtilegt að gera í London þá er þetta appið.
- London Eye er staðurinn þegar þú vilt skoða borgina frá rólegu og skemmtilegu sjónarhorni.
- Big Ben, eitt frægasta kennileiti London er klukkuturninn Big Ben. Turninn stendur við alþingishúsið og ekki er langt síðan nafni turnsins var breytt í Elizabeth Tower, til þess að heiðra Elísabetu drottningu.
- Westminister Abbey er þekktasta kirkja Bretlands. Á þeim 700 árum sem kirkjan hefur staðið hefur konungsfólk, hetjur og þrjótar gengið um þessa þekktu byggingu. Hægt er að skoða kirkjuna með eða án leiðsögumanns.
- Piccadilly Circus eitt af dýrari auglýsingasvæðum heims er á Piccadilly Circus. En þar er ekki aðeins að finna flott auglýsingaskilti og vinsælan túristastað. Þar er einnig styttan af Eros sem er vinsæll staður til að hittast á og stutt er að labba í Soho, Piccadilly og Regent´s Street.
- Buckingham Palace er ein af fáum starfandi konungshöllum í heiminum í dag. Hægt er að kaupa aðgöngumiða til þess að skoða hluta hallarinnar. Einnig er vinsælt að sjá hermennina fyrir framan höllina skipta um vakt. En það á sér iðullega stað kl: 11:00, ef verður leyfir, við hátíðlega athöfn.
- Madame Tussauds er eitt vinsælasta vaxmyndasafn heims. Madame Tussauds byrjaði störf sín fyrir um 200 árum og er enn jafn vinsæll staður að heimsækja og hann var þá.
- The Shard er hæsta bygging London og er útsýnið þaðan dásamlegt.
- Tower Bridge er eitt af helstu kennileitum London. Tower Bridge var byggð 1894 og stendur hún yfir ánna Thames.
Verslunarmiðstöðvar og verslanir
- Oxford Street er tvímælalaust ein vinsælasta verslunargata heims og lítið mál að eyða öllum deginum í búðum eins og Primark, Forever 21, Topshop, Uniglo, H&M, American Apparel, Selfridges og Next svo fátt eitt sé nefnt. Yfir 300 verslanir til að velja út og gleyma sér í.
- Regent Street er næsta gata við Oxford Street og eru þar einnig fjöldinn allur af verslunum.
- Knightsbridge er verslunarhverfi og þar má meðal annars finna Harrods og Harvey Nichols. Harrods er ein frægasta verslun Lundúna.
- Westfield er einn stærsti verslunarkjarni í heimi, þar er auðvelt að fylla verslunarpokana. 3 verslunarmiðstöðvar bera nafnið og er hún stærst við Stratford lestarstöðina.
Þetta eru aðeins nokkur verslunarhverfi í London, þá má einnig nefna Carnaby Street, King´s Road, Notting Hill, Mayfair og svo Bond Street þar sem dýrari merkjavörur fást.
Markaðir eru mjög vinsælir í London og er Portobello markaðurinn einn frægasti götumarkaður í heimi. Portobello Markaðurinn er í vesturhluta London í Notting Hill hverfinu.
Í efsta hluta markaðsins er fjöldinn allur af antíkbúðum og básum. Allt í kringum antíkina er hið fræga bakarí The Hummingbird Bakery með sínar frægu bollakökur. Einnig er á markaðnum grænmeti og ávextir, vintage föt og ungir hönnuðir að koma sinni hönnun á fram færi.
Matur og drykkur
Wahaca Matseðillinn er innblásinn af einföldum réttum sem hægt er að finna á mörkuðum Mexíkó. Best er að kaupa nokkra smárétti. Nokkrir staðir eru í London meðal annars í Covent Garden, Soho og Southbank rétt hjá London Eye. Hönnun staðanna er skemmtilega öðruvísi og enginn staður lítur eins út. Skoðið nánar á www.wahaca.co.uk
Nandos er fjölskylduvænn portúgalskur staður þar sem þeir eru hvað þekktastir fyrir peri-peri kjúklinginn. Grillaður kjúklingur með eðal sósum og meðlæti, já takk! Í London eru yfir 70 Nandos staðir. Skoðið nánar á www.nandos.com til að finna Nandos næst þér.
Gaucho er argentískur steikarstaður sem við mælum svo sannarlega með að fara á. Starfsmenn Gaucho vilja trúa því að hver gestur verði að upplifa argentínskar matarvenjur, vínið og ástríðu argentínska fólksins. Skoðið nánar á www.gauchorestaurants.com.
Shaka Zulu er afrískur veitingastaður sem breytist síðar um kvöldið í skemmtistað. Umhverfið er ótrúlega skemmtilegt og framandi og maturinn er mjög góður. Skoðið nánar á www.shaka-zulu.com .
Prospect of Whitby er yndislegur bjórgarður og sagan hermir að sjálfur Charles Dickens hafi vanið komur sínar á þennan sögulega bar, sem hefur staðið vaktina síðan 1520 og er talinn einn af elstu pöbbum borgarinnar. Frá veröndinni er stórfenglegt útsýni yfir Thames-ána og ekki verra að skála hér á meðan sólin sest. Barinn er á 57 Wapping Wall, St Katharine's & Wapping, London.
The Old Fountain býður upp á bragðgóðan bjór, góðan mat og skemmtilega stemningu. Útisvæðið er tilkomumikill þakgarður á einum besta stað í London. Það er gott að mæta hingað snemma og tryggja sér sæti áður en fólk byrjar að streyma á pöbbinn eftir vinnu. Kíkið á barinn á 3 Baldwin St, London
Liman Restaurant er lítill veitingastaður með tyrkneskum áhrifum. Mikið er um grænmetisrétti hér fyrir grænmetisætur. Mælum með að bóka borð fyrir fram, þar sem staðurinn getur verið þétt setinn. Skoðið nánar á www.liman.co.uk.
The Golden Chippy, það er ekki hægt að skella sér til London og ekki bragða á góðum fish & chips. Hér færðu góðan skyndibitamat í Greenwich hverfinu í London. Skoðið nánar á www.thegoldenchippy.com
The Shard Nokkrir veitingastaðir og barir eru í hæstu byggingu London. Um að gera að njóta útsýnisins og fá sér í gogginn í leiðinni. Skoðið nánar á www.the-shard.com/restaurants